Sport

Tvöfalt stærri úrvalsdeild hefst í kvöld

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
a-ridill-urvalsdeild.jpeg

Úrvalsdeild Stöð 2 Sport 2023 í pílukasti hefst í kvöld í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Alls taka 32 keppendur þátt og deildin er því tvöfalt stærri í ár en í fyrra.

Keppt verður í átta fjögurra manna riðlum og eins og áður fer keppnin fram á Bullseye í Reykjavík. Sigurvegari hvers riðils fyrir sig vinnur sér svo inn sæti í átta manna úrslitum, svokölluðum fjórðungsúrslitum.

Fjórðungsúrslitin verða svo leikin í nóvember áður en komið er að undanúrslitum og úrslitum í byrjun jólamánaðarins desember.

Alls verða beinar útsendingar tíu talsins og sú fyrsta hefst klukkan 19:30 á Stöð 2 Sport í kvöld. Þá verður A-riðill leikinn þar sem einn besti pílukastari landsins, Hörður Þór Guðjónsson, Íslandsmeistari U18, Gunnar Guðmundsson, Vopnfirðingnurinn Dilyan Kolev og Akureyringurinn Sigurður Fannar Stefánsson etja kappi.

B-riðill verður svo leikinn þann 6.september næstkomandi, C-riðill viku síðar og svo koll af kolli. Ríkjandi Úrvalsdeildarmeistari er Vitor Charrua og mætir hann til leiks í G-riðli þann 1. nóvember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×