Við segjum frá máli Luis Rubiales, forseta spænska knattspyrnusambandsins, sem ætlar að sitja sem fastast þrátt fyrir mikinn þrýsting um að hann segi af sér. FIFA hefur nú sett hann í 90 daga bann frá afskiptum af knattspyrnu, á meðan sambandið rannsakar koss sem hann veitti Jenni Hermoso, fyrirliða spænska landsliðsins.
Auk þess munum við segja frá stöðu mála í Rússlandi, þar sem stjórnvöld þvertaka fyrir að hafa haft nokkuð að gera með dauða rússneska málaliðaleiðtogans Jevgenís Prígósjín. Hann er talinn af eftir að flugvél sem hann var farþegi í hrapaði skammt frá Moskvu.
Við verðum einnig í beinni útsendingu frá Bæjarhátíð Seltjarnarness sem fer fram í dag, þrátt fyrir fyrsta rigningardaginn á höfuðborgarsvæðinu í langan tíma. Fyrr í dag hitti Helena Rós, fréttamaður okkar, eiganda einhvers stærsta Legosafns landsins, en safnið telur fjölda legosetta, og það elsta er yfir áttatíu ára gamalt.
Þetta og fleira til í kvöldfréttum Stöðvar 2, í beinni útsendingu á Bylgjunni og Stöð 2 klukkan hálf sjö.