Lavia kemur til Chelsea frá Southampton fyrir 53 milljónir punda, en kaupverðið gæti þó enn hækkað upp í 58 milljónir punda. Það samsvarar um 9,8 milljörðum íslenskra króna.
Hann er áttundi leikmaðurinn sem Lundúnaliðið fær til liðs við sig í sumarglugganum og annar leikmaðurinn sem félagið barðist við Liverpool um og hafði betur. Chelsea festi kaup á ekvadorska miðjumanninum Moises Caicedo á dögunum, en Liverpool hafði boðið vel í bæði Lavia og Caicedo áður en þeir ákváðu frekar að fara til Chelsea.
Í janúar á þessu ári keypti Chelsea svo argentínska miðjumanninn Enzo Fernandez, sem Liverpool hafði einnig haft áhuga á, og því getur Chelsea stillt upp í svokallaða LFC miðju með þeim Lavia, Fernandez og Caicedo.
Introducing a new Blue! 🔵 pic.twitter.com/vdHynMOMti
— Chelsea FC (@ChelseaFC) August 18, 2023
Romeo Lavia er 19 ára miðjumaður sem fór í gegnum unglingastarf Anderlecht áður en hann gekk í raðir Manchester City árið 2020. Hann lék þó aldrei leik fyrir City og færði sig yfir til Southampton fyrir síðasta tímabil þar sem hann blómstraði.
Hann lék 29 leiki í ensku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili þar sem hann skoraði eitt mark og á að auki að baki einn leik fyrir belgíska landsliðið.