Þetta segir Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra í samtali við Morgunblaðið um áhyggjur manna af auknum fjölda ferðamanna hér á landi. Hún segist þó ekki telja tímabært að horfa til slíkra úrræða og bendir á að gert sé ráð fyrir að um 2,1 til 2,3 milljónir ferðamanna komi hingað á árinu.
Lilja segir standa til að útvíkka gistináttaskattinn til skemmtiferðaskipa en það sé ekki í kortunum að takmarka komur þeirra. Aðgangsstýring hafi verið tekin upp við hinar ýmsu náttúruperlur, sem hún segist telja eðlilega þróun.
Ráðherrann bendir einnig á að ferðaþjónustan, sem sé sú grein sem sé að skapa mestar gjaldeyristekjur, hafi spilað lykilhlutverk í byggðarþróun síðustu ára.
„Margir einstaklingar voru farnir að huga að því að hverfa frá sínum býlum en gerðu það ekki, vegna þess að möguleikinn að gerast ferðaþjónustubændur yfir sumarið gerði þeim kleift að vera í fjölbreyttari rekstri. Ég held að það sé ein jákvæðasta birtingarmynd ferðaþjónustunnar að með henni aukast líkur á að við höldum þessu stóra landi í byggð, sem annars hefði ekki verið,“ segir Lilja.