„Við getum spilað betur en erum mjög ánægðir með sigurinn,“ sagði Ten Hag við fjölmiðla eftir 1-0 sigur kvöldsins.
„Andstæðingarnir voru vasklegir. Við þurfum að jafna orkuna þeirra, við þurftum að berjast fyrir stigunum. Það er enginn leikur í ensku úrvalsdeildinni auðveldur og hvað þá gegn Úlfunum. Þeir eru hörkulið og við gerðum vel. Við verðum að berjast í hverjum einasta leik en vonumst til að vera betri á boltanum í næsta leik,“ bætti Hollendingurinn við.
Um nýju leikmennina
Ten Hag var spurður út í nýju leikmennina sína, markvörðinn André Onana og miðjumanninn Mason Mount.
„Hann varði nokkrum sinnum mjög vel og var rólegur á boltanum, mjög góður fyrsti leikur,“ sagði þjálfarinn en bætti við að Onana hafi mögulega verið heppinn að fá ekki á sig vítaspyrnu þegar hann klessti á leikmann Úfanna er hann reyndi að grípa fyrirgjöf.
„Ég held þú getir rökrætt um hvort þetta hafi verið vítaspyrna eður ei.“
„Góð frammistaða. Hann gerði það sem við bjuggumst við af honum og spilaði á háu getustigi í leiknum,“ sagði Ten Hag að endingu um Mount.