„Þeir lauma sér stundum út úr girðingunum og kíkja á okkur,“ segir Guðrún Sigríður Knútsdóttir, einn íbúa í Furuhlíð í samtali við Vísi. Hún auglýsti eftir eigendum hrossanna á íbúahópi á Facebook.
„Við króuðum hestana af á bakvið girðingu við göngustíg hér í hverfinu. Það er mikið af hundafólki í götunni og við hlupum öll með tauma og lokuðum svo fyrir girðinguna svo þeir kæmust ekki út aftur,“ segir Guðrún létt í bragði.
„Það er sérlega fallegt folaldið sem er með í för. Það kemur einhver á endanum að sækja þau en þess vegna auglýsti ég þau líka á Setbergssíðunni. Þetta hefur verið frekar algengt hér, lausaganga hesta, þannig að maður kippir sér ekki mikið upp við þetta.“

