Manchester City varð aðeins annað liðið í sögunni til að vinna þrennuna á Englandi þegar liðið vann ensku úrvalsdeildina, FA bikarinn og Meistaradeild Evrópu. City hefur titilvörn sína í ensku úrvalsdeildinni í kvöld þegar liðið tekur á móti Jóhanni Berg Guðmundssyni og félögum í Burnley.
„Þetta er eitthvað sem þú afrekar bara einu sinni á ævinni,“ sagði Guardiola um möguleika liðsins á að vinna þrennuna annað árið í röð á blaðamannafundi í gær.
„Það er ekki möguleiki að við endurtökum það sem við gerðum á síðasta tímabili.“
Manchester City hefur orðið Englandsmeistari síðustu þrjú ár og getur því orðið fyrsta liðið í sögunni til að vinna ensku deildina fjórum sinnum í röð. Guardiola telur þó að liðinu takist ekki að vinna jafn marga titla og á síðasta tímabili.
„Við klifum hæsta fjallið á síðasta tímabili, en á síðustu dögum höfum við verið að koma okkur niður og nú byrjum við á byrjunarreit. Við stefnum allir í sömu átt og við munum mæta miklu mótlæti þegar við reynum að klífa fjallið aftur eins hátt og mögulegt er. Fótboltinn okkar og hugarfarið okkar mun ráða því hvernig tímabilið fer,“ sagði Guardiola að lokum.