Garðurinn er við Oddeyrargötu 17 og þar eru allir velkomnir og það, sem meira er, það kostar ekkert inn í garðinn, sem er í einkaeigu.
Hreinn Halldórsson, sem býr í húsinu segir garðinn vera einkagalleríið sitt, lifandi undir berum himni. Þar er lofthæðin endalaus og lýsingin síbreytileg.
„Þetta er ævintýragarður því hér eru fyrst og fremst ævintýri og ég segi stundum að þetta er uppfullt af prinsum, prinsessum og drottningum en það er hins vegar bara einn kóngur og það er ég sjálfur, þetta er sem sagt mitt kóngsríki,” segir Hreinn hlægjandi.

Hreinn segist eiga hvert einasta handtak í garðinum, öll verkin og umhirðu garðsins.
„Þetta er opið frá tíu á morgnana og til átta á kvöldin og allt ókeypis. Fólk getur labbað hér um og sést niður og myndað og skoðað. Það má alveg snerta og koma við,” bætir Hreinn við.
Það má svo sannarlega taka hattinn ofan fyrir dugnaði Hreins og fyrir að opna garðinn sinn fyrir alla áhugasama.

„Ég hef bara svo gaman af því að sýna verkin mín því að þetta er bara mín aðstaða, þetta er bara eins og mitt einkagallerí þannig séð,” segir Hreinn.
Og hver eru viðbrögð fólks þegar það kemur til þín?
„Það er bara mjög ánægt, virkilega ánægt og það er svo gaman að segja frá því að þetta er alveg frá því að vera börn og yfir í mjög aldrað fólk, sem á erfitt með að ganga og þess vegna setti ég handrið á tröppur og svona, því að það er að koma hérna allur aldur.”

Hreinn er mjög nýtin með alla hluti því í garðinum eru til dæmis gömlu tannburstarnir hans á einu verkinu.
„Já, þetta er það sem ég var búin að nota í fjögur eða fimm ár staðráðinn í að nýta þá. Það byrjaði með því að ég var að henda tannburstanum mínum og held á honum svona, er að láta hann detta í ruslið en þá allt í einu sé ég bara, þetta er svo fallegur litur, ég man enn þá hvaða litur þetta var og þá fór ég að safna þeim og ákvað að nýta þá,” segir Hreinn alsæll með garðinn sinn og hvað fólk hefur gaman af því að skoða hann.
