Myndband af haglélinu tók Ásgeir Kr Guðmundsson og birti á Facebook.
Elín Björk Jónasdóttir veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands segir að haglélið sé afleiðing þrumuveðursins.
„Skúraklakkar valda þrumuveðrinu. Það myndast hagl í þeim sem síðan bráðnar á leiðinni niður. Það er það sem fólki finnst vera snjókoma eða slydda,“ segir Elín.
Skúraklakkarnir eru há ský, oft eins og blómkál í laginu.
„Það verður hringrás í þeim þannig haglél geta orðið stór. Þegar uppstreymið nær ekki að halda þeim á lofti falla þau til jarðar eins og önnur úrkoma. Af því að það er tiltölulega hlýtt þá bráðna þau á leiðinni niður.“
„Það er tiltölulega algengt að það komi svona þrumuveður. Það er misjafnt hvort úrkoman nái alveg að bráðna á leiðinni niður eða ekki.“