Knattspyrnusamband Evrópu UEFA gaf út yfirlýsingu með þessum fréttum fyrir skömmu en BBC greinir frá. Hvað varðar Juventus þá segir UEFA að málið snerti millifærslur sem urðu á árunum 2012 og 2019. Fyrir þessar ólöglegu færslur sem brjóta í bága við reglurnar þá verður Juventus meinað að keppa í Sambandsdeild Evrópu ásamt því að fá sekt upp á 17,4 milljónir punda. Sektin gæti helmingast þó ef Juventus nær að hlíta reglum um fjármál næstu þrjú árin.
Bannið var viðbúið en á síðasta tímabili voru dregin 10 stig af Juventus fyrir brotin í Serie A. Bannið frá Sambandsdeildinni leiðir til þess að Fiorentina fær keppnisrétt í staðinn en þeir fjólubláu enduðu sæti neðar en Juventus en komust í úrslitaleik Sambandsdeildarinnar á síðasta tímabili og lutu í gras fyrir West Ham.
Chelsea fengu þá sekt upp á 8,57 milljónir punda, sem þeir hafa samþykkt að greiða að fullu, fyrir að veita rangar upplýsingar um sín fjármál á þeim tíma þegar Roman Abramovich átti félagið. Chelsea hefur þó eytt um 600 milljónum punda í leikmenn frá því að Abramovich hvarf frá eignarhaldinu og Todd Boehly tók við.