Erlent

Fyrsta konan tekin af lífi í Singa­púr í ní­tján ár

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Maður leggur sig við sjávarsíðuna við fjármálahverfið í Singapúr. Singapúr tekur hart á glæpum sem tengjast sölu á vímuefnum.
Maður leggur sig við sjávarsíðuna við fjármálahverfið í Singapúr. Singapúr tekur hart á glæpum sem tengjast sölu á vímuefnum. AP/Vincent Thian

Kona sem hlaut dauðarefsingu og var hengd í Singapúr í dag er fyrsta konan sem er tekin af lífi þar í landi í næstum tuttugu ár. Landið er með eina hörðustu vímuefnalöggjöf í heimi og beitir dauðarefsingunni óspart.

Hinni 45 ára gömlu Saridewi Djamani var gert að sök að hafa verslað með þrjátíu grömm af heróíni árið 2018. Sjálf sagðist hún hafa verið að birgja sig upp af heróíni til einkaneyslu á meðan á Ramadan stæði. Hún neitaði þó ekki að hafa selt heróín og metamfetamín úr íbúð sinni.

Djamani er annar einstaklingurinn í þessari viku sem er tekinn af lífi í Singapúr vegna glæps sem tengist sölu vímuefna. Singapúr tekur hart á fólki sem selur vímuefni, frá mars 2022 hafa fimmtán verið teknir af lífi í landinu vegna slíkra glæpa. Allir þeir sem selja meira en 500 grömm af kannabisefnum eða meira en fimmtán grömm af heróíni hljóta dauðarefsingu.

Saridewi var ein af tveimur konum sem voru á dauðadeild í landinu samkvæmt mannréttindahópnum Transformative Justice Collective. Hún er fyrsta konan sem er tekin af lífi þar í landi síðan hárgeiðslukonan  Yen May Woen var tekin af lífi fyrir eiturlyfjasölu.

Amnesty International segir að Singapúr sé ásamt Kína, Íran og Sádí-Arabíu einu fjögur löndin sem hafa beitt dauðarefsingu nýlega vegna vímuefnatengdra glæpa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×