Körfubolti

Pressan kom ekki frá Pa­vel: Tinda­stóll fékk loksins tæki­færi og greip það

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pavel Ermolinskij lifir sig inn í leikinn í úrslitakeppninni í vor. Hann var sá fyrsti til að gera Tindastól að meisturum og verður sá fyrsti til að stýra Stólunum í Evrópukeppni.
Pavel Ermolinskij lifir sig inn í leikinn í úrslitakeppninni í vor. Hann var sá fyrsti til að gera Tindastól að meisturum og verður sá fyrsti til að stýra Stólunum í Evrópukeppni. Vísir/Hulda Margrét

Pavel Ermolinskij, þjálfari Íslandsmeistara Tindastóls, fagnar því að félagið sé tilbúið að stíga stórt skref og taka þátt í Evrópukeppni næsta vetur.

Tindastóll hefur skráð sig í FIBA Europe Cup á komandi tímabili en það er næststærst Evrópukeppnin sem FIBA heldur úti, á eftir FIBA Champions League. Þórsarar úr Þorlákshöfn tóku þátt í sömu keppni í fyrra en duttu út eftir undankeppni sem fór fram í Kósóvó.

„Þetta er mjög spennandi fyrst og fremst og mér sjálfum finnst þetta sérstakt. Ég hef saknað þess að íslensku liðin séu reglulega að taka þátt í þessu. Mér finnst að það ætti að vera þannig þegar liðin fá tækifæri til,“ sagði Pavel Ermolinskij í samtali við Stefán Árna Pálsson.

„Mér finnst frábært að þegar Tindastóll fær loksins tækifæri til að vera með þá grípa þeir það. Við verum bara mjög spenntir fyrir þessu,“ sagði Pavel.

Var Pavel að pressa á að Tindastóll færi í Evrópukeppni þegar hann var í samningaviðræðum um að halda áfram þjálfun liðsins?

„Nei, alls ekki. Ég vildi gera þetta eins og allir. Þetta er smá fjárhagslegur pakki og smá skuldbinding. Það er ástæðan fyrir því að það fara ekki allir í þetta. Ég var alls ekki að pressa á neinn að taka þátt í þessu,“ sagði Pavel.

„Mínir menn fyrir norðan gera hlutina bara vel, ákváðu bara að fara í þetta mál, tækla það og leysa. Þetta er bara mjög ánægjulegur endir,“ sagði Pavel. Eru Stólarnir búnir að setja sér markmið.

„Alls ekki. Bara að fara út, taka þátt og gera sitt besta. Það sem er smá vandamál í þessu er að íslensk félög hafa ekki verið mjög dugleg að taka þátt í þessu og það er því erfitt að átta sig í hvað við erum að fara út í. Það er erfitt að bera þetta saman við fortíðina,“ sagði Pavel.

„Það er löng leið inn í einhverja riðla og eitthvað slíkt. Þetta er meira en að fara og hafa gaman en þetta er heldur engin pressa núna að þurfa að verða Evrópu- og heimsmeistarar,“ sagði Pavel léttur að vanda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×