Hinn spænski Gundi býr hér og starfar sem leiðsögumaður um helming ársins. Hann var afar spenntur að sjá eldgosið þegar fréttastofa ræddi við hann þar sem lögreglan á Suðurnesjum hafði lokað afleggjaranum að Keili frá Reykjanesbraut.
„Þetta er pínu fyndið af því að ég hef verið hér í tvo daga og setið nálægt Keili að bíða eftir gosinu. Í dag þurfti ég að fara aftur til Reykjavíkur vegna vinnu, og þá gýs eldfjallið. Þannig að nú er ég hér að bíða eftir því að fá leyfi til að keyra bílinn minn að fjallinu.“
Og ef þú nærð ekki að sjá gosið í kvöld, ætlar þú þá að koma aftur á morgun?
„Auðvitað. Ég ætla að sofa hér. Ég er með húsbíl, þannig að ég ætla að sofa hér,“ segir Gundi. Hann gerir ráð fyrir að koma sér fyrir á tjaldsvæði, hvort sem er í Grindavík eða Vogum.
„Bara þar sem ég er sem næst rennandi hrauni.“
Gætu framlengt ferðina
Þau Martina og Francesco frá Ítalíu fara heim á morgun, eftir að hafa dvalið hér á landi í viku. Þau heyrðu fyrst af möguleikanum á eldgosi á Reykjanesskaga fyrir þremur dögum síðan.
„Síðan þá höfum við athugað með það á klukkutíma fresti,“ sagði Martina þegar fréttamaður tók þau tali.

„Við viljum vera hér eins lengi og við getum til að sjá hvort við megum fara inn, en við vitum ekki hvenær það er.“
Þau segjast bæði vera tilbúin að framlengja dvöl sína hér á landi ef það er það sem þarf til þess að þau nái að sjá gosið, en þau eiga flug heim til Ítalíu um hádegisbil á morgun.
Kemur aftur á morgun
Alizée frá Frakklandi er stödd hér á landi í starfsnámi. Hún var á meðal þeirra sem freistuðu þess að komast nær gosinu.
„Ég var við Fagradalsfjall með vini mínum til þess að fara í göngu. Svo sáum við þetta og vildum fara, en það er auðvitað lokað,“ sagði Alizée.

Hún var ekki viss um að hún ætlaði að bíða lengi í von og óvon um að svæðið yrði opnað í kvöld, en var harðákveðin í að koma aftur á morgun.
Brunaði beint að gosinu
Hinn íslenski Jói hafði farið á buggy-bíl að Keili áður en lögregla lokaði svæðinu. Fréttastofa tók hann tali þegar hann kom til baka.
„Maður komst náttúrulega ekkert allt of nálægt. Svona þrjá kílómetra frá. En það blasti hraunflæðið og allt við,“ sagði hann.

Hann bætti því við að næst ætlaði hann sér að fara að nóttu til, þó skyggnið hafi verið ágætt nú í kvöld.
„En maður þarf að fara alveg lengst innúr, alveg inn á afrétt þar sem rollurnar eru á beit,“ sagði hann.
Ferðin hafi tekið um tvo tíma.
Stökkstu bara af stað um leið og þú vissir að gosið væri byrjað?
„Já, já. Ég var að leika mér hérna á Suðurnesjunum áður en þetta kom í útvarpinu, að þetta væri byrjað. Þá er um að gera að kíkja.“
Hér að neðan má sjá beina útsendingu úr kvöldfréttatíma Stöðvar 2 frá svæðinu, en skömmu áður en fréttatíminn hófst fengu fjölmiðlar leyfi Almannavarna til að fara inn á veginn að Keili.