Böðvar Sveinsson, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir að fyrstu mælingar geri ráð fyrir að skjálftinn hafi verið 3,3 að stærð.
Fréttastofa hefur fengið ábendingar í kvöld um að gos gæti mögulega verið hafið. Hefur þá verið miðast við það sem sjá má á vefmyndavélum fjölmiðla. Til að mynda mátti sjá rauðan blett á vefmyndavél mbl.is. Böðvar segir að ekkert eldgos sé þó á bakvið þann blett. Líklega er sólinni frekar um að kenna þar.

Þá mátti á sjöunda tímanum í kvöld sjá það sem virtist vera reykur að koma upp úr Litla-Keili. Það reyndist þó ekki vera raunin.
„Það er eitthvað dót á linsunni sem gerir að það líti út fyrir að vera reykur. Eins og einhver fluga sé búin að klessa á hana, einhver fita eða eitthvað á henni,“ sagði Bjarki Kaldalóns Friis, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands um „reykinn“ fyrr í kvöld.

Skömmu síðar færðist vefmyndavélin og fékkst það þá algjörlega staðfest að um kámu á linsunni var að ræða. Þegar rætt var við Bjarka fyrr í kvöld hafði skjálftavirknin verið byrjuð að aukast aftur. Skjálftarnir náðu þá upp að þremur en flestir voru minni.
Hægt er að fylgjast með skjálftasvæðinu í beinni útsendingu á Vísi.