Skoðun

Rétt­læti hins sterka

Jörgen Ingimar Hansson skrifar

Yfirvofandi útburður pólskrar fjölskyldu og sala á húsi í eigu þeirra og skyndi­gróði fyrirtækis af harmleikn­um hefur vakið viðbrögð almennings sem kemst við vegna harðneskjulegrar valdbeitingar yfir­valda gagnvart lítilmagna.

Í umræðuna virðist vanta að undirliggjandi ástæða er lagasetning Alþingis. Það er sú tilhneiging þess að setja helst ekki lög nema fyrst og fremst séu tryggð­ir hagsmunir hinna best settu í þjóðfélaginu, þeirra ríkustu og þeirra valda­mestu, á kostnað alls almenn­ings. Þegar um er að ræða að kreista skuldir út úr fólki og jafnvel bera það út er þessi tilhneiging mjög svo skýr að annaðhvort greiði skuld­arinn upp skuldir sínar með vöxtum og vaxtavöxtum eða hann hafi verra af. Ekki er í lögunum neinn fyrirvari varðandi aðstæður eða neitt það sem al­menningi gæti þótt vera máls­­bætur fyrir skuldarann sem ætti þá að verða til þess að leita mild­andi úrræða fyrir hann eða skoða einhverjar leiðir út úr vandanum.

Algengt er að talað er um að verið sé að berjast við „kerfið“ en þegar nánar er að gáð er algengast að það er Alþingi með sínum lagasetningum eða ákvörðunum sem verið er að fást við en „kerfið“ aðeins að reyna að framfylgja þeim.

Árið 2018 var gefin út bók um svipaðan atburð árið 1953. Hún ber heitið Kambs­málið og er eftir Jón Hjart­arson. Eftir því sem ég best veit hefur sú bók ekki vakið neinn þingmann til umhugsunar um að breyta þurfi ofangreindri löggjöf. Von­andi verður ekki það sama uppi á teningnum varð­andi það mál sem nú er í gangi eða eru þingmenn kannski yfir það hafnir að taka eftir því sem er að gerast í þjóðfélaginu og breyta lögum í samræmi við það.

Ástæður fyrir tilhneigingu Alþingis að standa vörð um hinn sterka í þjóðfélaginu eru eflaust margar. Meðal þeirra er örugglega sú aðferð þess að leita til hagsmuna­að­ila annarra en almennings, til um­sagnar um laga­­­setningar auk þess sem laun al­þing­is­manna og sporslur eru orðnar svo háar að í heild eru þeir í hópi þeirra sem hæst hafa launin í landinu og eiga því erf­ið­ara um vik að setja sig í spor almenn­ings.

Varðandi aðra þætti þjóðfélagsins virðist mega nefna skiptastjóra yfir þrota­búum og jafnvel erfðabúum þar sem þeir sitja sem alls ráðandi þar sem lögin eru á þann veg að þegar búið er að skipa þá virðist ekkert úrræði vera til þess að koma þeim frá sama hvað. Athuga þarf að skiptastjórar eru lögmenn sem yfirleitt vinna á al­mennum lög­manna­markaði. Ef eitthvert fé er fyrir hendi í þrotabúinu virðast þeir geta, hafi þeir samvisku til þess, bæði hagað málum þannig að þeir hafi sem mest út úr því og ráðstafað verkefnum eftirlitslaust samkvæmt eigin hagsmunum. Mér finnst ég vera alltaf öðru hverju að heyra af svona málum. Eitt af dæmum um þetta mun vera skipting bús Sæplasts ehf. fyrir allnokkrum árum. Frásögnin af því gengur út á að gjaldfært fyrir­tæki hafi verið knúið í þrot til mikils hagsbóta fyrir skipta­stjór­ann sjálfan og ýmsa aðila í kringum hann. Er það kannski hlutverk Alþingis að sjá til þess að lögmenn auðgist á kostnað almennings?

Í nýrri bók eftir undirritaðan sem ber heitið Réttlæti hins sterka er bent á að al­menningur eigi mjög undir högg að sækja í dómskerfinu vegna þess hve dýrt það er og þegar út í það er komið er ekkert sem kemur í veg fyrir að hin­n fjárhagslega sterki geti blásið málið út og gert það þannig sem allra dýrast.

Lögin um dómskerfið eru löngu úrelt sem leiðir af sér ýmis skrýtilegheit meðal annars undar­lega dóma sem ekkert eiga skylt við raunveru­leik­ann í nútímanum og hefur til­hneig­ingu til þess að vera mótdrægt al­menn­ingi.

Algengt er að dómarar tilgreini aðeins í dómsforsendum sannanir og röksemdir dómnum í hag en geti jafnvel alls ekki sannana og röksemda þess sem hann dæmir í mót. Það þýðir að hann getur valið sér sannanir til þess að dæma eftir sem auð­veld­ar það mjög að hann geti dæmt hverjum sem er í vil óháð lögum og réttlæti sem er al­menn­ingi mjög mótdrægt. Í því sambandi þarf sérstaklega að hafa í huga að dóms­kerfið er búið til af Alþingi þar sem flest atriði ganga út á það að tryggja hag hinna best settu.

Ekki er einu sinni ýjað að því í lögunum að dómar eigi að vera réttlátir, sann­gjarn­ir eða að heilbrigð skynsemi eigi að ráða för. Það eitt gæti rétt hlut hinna efna­minni í dómskerfinu svo um munar.

Svona má halda áfram varðandi löggjöfina. Sem eitt dæmi í viðbót má nefna að skatta­ákvarð­anir Alþingis á síð­ustu 25 árum hafa leitt það af sér að skattar hafa lækkað um 30% á hina efna­mestu en hækkað um 30% á allan almenning. Er þá tekið tillit til þess að nú greiðir al­menningur hluta af kostnaði við heilbrigðiskerfið en gerði það ekki áður. Það sem áður var kallað skattar er nú kallað heimilis­kostn­aður. Í þessum útreikning­um hefur verið stuðst við niðurstöður Indriða H. Þorláks­sonar fyrrverandi ríkisskattstjóra.

Samkvæmt útreikn­ingum Stefáns Ólafssonar prófessors og samstarfsmanna við Háskóla Ís­lands sem var unnin í fjölþjóðlegri samvinnu mun skatt­lagning þeirra allra ríkustu í landinu vera með þeim lægstu í OECD ríkjunum en skattlagning almennings vera með þeim hæstu sem þar þekkist og þá sérstaklega þeirra sem lægstar hafa tekjurnar.

Eftir því sem ég best veit hefur Alþingi hingað til látið allt sem vikið er að í þessari grein eins og vind um eyrum þjóta. Vonandi á Eyjólfur eftir að hressast.

Höfundur er rekstrarverkfræðingur




Skoðun

Sjá meira


×