Í kaffispjalli um helgar er rætt við fólk í ólíkum störfum. Við spyrjum alltaf um það hvenær fólk vaknar á morgnana
Hvenær vaknar þú á morgnana?
„Ég stilli alltaf vekjaraklukkuna á sama tíma, hálf sjö, alltaf jafn bjartsýn að nú sé sá dagur runninn upp sem ég mun ekki nýta mér snooze takkann. Sá dagur hefur ekki enn komið en ég er yfirleitt staðin upp í kringum sjö. Það má segja að ég sé ágætlega mikil morgunmanneskja og alltaf spennt að hendast af stað í daginn.“
Hvað er það fyrsta sem þú gerir á morgnana?
„Ég vildi að ég gæti sagt að ég vakni alla morgna í rólegheitum, hendi mér í sloppinn, búi til kaffi og fari að hugleiða. En svo er ekki og ég er yfirleitt að þjóta af stað! Það sem ég geri flesta morgna er að grípa mér ískaldan Collab, skella mér í ræktarfötin, og hendast í ræktina. Hreyfing á morgnana gefur svo mikla og góða orku fyrir daginn. Hver veit nema að maður nái að bæta hugleiðslu við morgunrútínuna einn daginn.“
Hvort myndir þú velja: Scrabble eða Matador?
Ég er allan daginn meiri Matador spilari en Scrabble. Ég elska að spila og þá sérstaklega í góðra vina hópi. Mér finnst samt lang skemmtilegast að spila spil sem er smá spenna og action í og þess vegna á Matador betur við mig en Scrabble.“

Í hvaða verkefni ertu að vinna helst í þessa dagana?
„Það er nóg að gera þessa dagana! Nýverið tók ég við sem markaðsstjóri hjá Póstinum sem hefur verið bæði skemmtilegt og lærdómsríkt. Pósturinn er rótgróið fyrirtæki í miklum breytingarfasa og það eru margir spennandi hlutir að gerast þar.
Samhliða því var ég að stofna fyrirtæki með nokkrum frábærum konum sem heitir Visteyri og opnaði í vikunni. Visteyri.is stuðlar að hringrásarhagkerfi en þar getur þú keypt og selt notuð föt og fengið sent um allt land. Viðtökurnar hafa verið virkilega góðar og langt fram úr okkar væntingum.“
Hvernig skipuleggur þú þig í vinnu?
„Ég er frekar skipulögð að eðlisfari. Mér finnst ekkert skemmtilegra en að setja upp gott plan. Ég eyði miklum tíma í að gera allskonar to do lista sem eiga það stundum til að verða aðeins of ítarlegir. Það er kannski óþarfi að hafa „vakna“ á to do listanum. Það er algjört lykilatriði fyrir mig að hafa frekar færri hluti á listanum því þá næ ég yfirleitt að klára og gera umfram það sem ég ætlaði mér í upphafi. Annars elska ég Asana og það er uppáhalds skipulags tólið mitt.“
Hvenær ferðu að sofa á kvöldin?
Alltof seint! En það er aðallega sökum þess að ég vinn mikið fram eftir.
Ég reyni að setja mér markmið að fara að sofa fyrir miðnætti en það tekst ekki alltaf.
Ég er hins vegar mikill talsmaður þess að reyna alltaf að ná átta tíma svefn þó ég standi sjaldnast við það sjálf. Ég ætti kannski að fara að taka mínum eigin ráðleggingum til tilbreytingar, en það bíður betri tíma.“