Ósk Friðjóns um lausn frá og með 1. janúar 2024 var samþykkt á fundi bæjarstjórnar Reykjanesbæjar á þriðjudag. Í samtali við Vísir segir Friðjón að aðalástæðan fyrir ákvörðun sinni sé að hann verði 67 ára í nóvember. Hann hafi verið sveitarstjórnarmaður frá 2010 og nú sé komið gott.
„Það er gott að hleypa ungu og fersku fólki að. Er ekki gott að geta ákveðið hvenær maður vill hætta frekar en að lenda í því að einhverjir aðrir segir manni að hætta?“ segir hann.
Ekki er ráðið hvað tekur við þegar Friðjón lætur af sveitarstjórnarstörfum um áramótin.
„Kannski bara að keyra mótorhjól og spila golf,“ segir hann.
Skiptast á stólum við brotthvarfið
Nokkrar hrókeringar verða við brotthvarf Friðjóns. Samfylkingin myndaði meirihluta með Framsóknarflokknum og Beinni leið eftir síðustu kosningar. Við upphaf meirihlutasamstarfsins var greint frá því að Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, oddviti Framsóknarflokksins, yrði forseti bæjarstjórnar fyrri hluta kjörtímabilsins en formaður bæjarráðs á seinni hluta þess. Hún tekur við af Friðjóni sem formaður bæjarráðs um áramótin en Guðný Birna Guðmundsdóttir verður forseti bæjarstjórnar í stað Halldóru.
Guðný Birna verður oddviti Samfylkingarinnar út kjörtímabilið og tekur sæti sem aðalfulltrúi í bæjarráði. Hún var í öðru sæti á lista Samfylkingarinnar fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í fyrra.
Sigurrós Antonsdóttir, sem var í fjórða sæti á listanum, tekur sæti sem aðalfulltrúi í bæjarstjórn og Sigurjón Gauti Friðriksson, sem skipaði sjöunda sæti listans, verður varamaður.