Fótbolti

Tæplega tveir af hverjum þrem á móti VAR

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Enskir stuðningsmenn eru ekki hrifnir af notkun VAR ef marka má nýlega könnun stuðningsmannasamtakana FSA.
Enskir stuðningsmenn eru ekki hrifnir af notkun VAR ef marka má nýlega könnun stuðningsmannasamtakana FSA. Catherine Ivill/Getty Images

Tæp­lega tveir af hverjum þrem stuðnings­mönnum í Eng­landi eru á móti notkun mynd­bands­dómgæslu (VAR) í ensku úr­vals­deildinni.

Könnun sem gerð var meðal stuðningsmanna og birt var í gær sýnir að 63,3 prósent þeirra eru á móti VAR. Þá lýsa rétt tæplega fjórir af hverjum fimm yfir óánægju með VAR þegar á völlinn er komið, en 79,1 prósent aðspurðra sögðu upplifun sína af tækninni slæma eða mjög slæma þegar þeir voru sem áhorfendur uppi í stúku.

Þetta er heldur verri niðurstaða en þegar sambærileg könnun var gerð árið 2017, áður en VAR var tekið í notkun. Þá sögðust 74,6 prósent stuðningsmanna styðja þá hugmynd að fá VAR inn í leikinn til að aðstoða dómara við erfiðar ákvarðanir.

Það voru stuðningsmannasamtökin FSA (e. Football Supporters Association) sem stóðu fyrir könnuninni og voru tæplega tíu þúsund stuðningsmenn sem tóku þátt. Könnunin fór fram á netinu og stóð frá mars og fram í apríl.

Tæplega 92 prósent aðspurðra sögðu að ákvarðanir tækju of langan tíma eftir að VAR var tekin í notkun, en aðeins 26,8 prósent sögðust vera algjörlega, eða að hluta til, hlynnt notkuninni. Þá sögðust aðeins 5,5 prósent af þeim sem höfðu mætt á völlinn lýsa upplifun sinni sem jákvæðri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×