West Ham bar sigurorð af Fiorentina í úrslitaleik Sambandsdeildar Evrópu á dögunum og vann þar með sinn fyrsta stóra titil í fjörtíu og þrjú ár.
Í fyrri hálfleik leiksins, sem fram fór í Prag, köstuðu stuðningsmenn West Ham glösum inn á völlinn þegar Cristiano Biraghi leikmaður Fiorentina hugðist taka hornspyrnu. Glösunum rigndi yfir Biraghi og aðstoðardómarann sem átti fótum sínum fjör að launa.

Eitt glasanna hæfði Biraghi í höfuðið svo að úr blæddi. Gera þurfti hlé á leiknum í dágóða stund á meðan gert var að sárum Biraghi og fengu stuðningsmenn West Ham á vellinum skilaboð á risaskjá vallarins að láta umsvifalaust af hegðun sinni og bera virðingu fyrir leikmönnum og starfsmönnum leiksins.
Nú hefur UEFA úrskurðað að engir áhorfendur megi mæta á næsta heimaleik West Ham í Evrópukeppni. Auk þess fær félagið 50.000 evrur í sekt og auka 8000 evrur í sekt þar sem áhorfendur hlupu inn á völlinn í leikslok.
Þá má félagið ekki heldur selja miða til stuðningsmanna á næsta útileik liðsins í Evrópu en sú refsing er skilorðsbundin til tveggja ára. West Ham tryggði sér sæti í Evrópudeildinni á næsta tímabili með sigrinum í Sambandsdeildinni.
Töluverð ólæti voru í Prag í aðdraganda úrslitaleiksins og bárust fréttir af því að stuðningsmenn Fiorentina hefðu ráðist að Englendingum á veitingastað í borginni. Þá réðust stuðningsmenn AZ Alkmaar að stuðningsmönnum West Ham í lok undanúrslitaleik liðanna í Sambandsdeildinni.
Hollenska félagið gaf út yfirlýsingu í kjölfarið og sagði að „litið yrði tilbaka á kvöldið með skömm“ en stuðningsmenn Alkmaar réðust þar að svæði á áhorfendapöllunum þar sem fjölskyldur og vinir leikmanna West Ham sátu.