Fótbolti

Manchester United gefst upp á að eltast við Kane

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Manchester United er búið að gefast upp í eltingaleik við Harry Kane.
Manchester United er búið að gefast upp í eltingaleik við Harry Kane. Tottenham Hotspur FC/Tottenham Hotspur FC via Getty Images

Svo virðist sem forráðamenn Manchester United séu búnir að gefast upp á því að eltast við enska landsliðsfyrirliðann Harry Kane, framherja Tottenham.

Eins og flest sumur undanfarinn áratug hefur Kane verið orðaður við brottför frá Tottenham. Þetta sumarið er engin undantekning, en talið er að þessi tæplega þrítugi framherji vilji finna sér nýja áskorun.

Kane á aðeins eitt ár eftir af samningi sínum hjá Tottenham og því sjá mörg stórlið tækifæri á því að fá þennan markahæsta framherja enska landsliðsins frá upphafi á góðu verði. Daniel Levy, stjórnarformaður Tottenham, er þó ekki þekktur fyrir að gefa afslætti og það er hár vermiði sem virðist hafa fælt Manchester United frá kaupunum.

Harry Kane var efstur á óskalista Eriks ten Hag, knattspyrnustjóra United. Samkvæmt umfjöllun The Guardian um málið er Hollendingurinn vonsvikinn með það að ekki sé hægt að lokka Kane til félagsins, en skilur þó að klúbburinn verði að setja mörkin einhversstaðar þegar kemur að því að borga fyrir leikmann sem verður þrítugur í næsta mánuði og á aðeins eitt ár eftir af samningi sínum.

Það verður því fróðlegt að sjá hvað verður um Harry Kane í sumar og hvort önnur félög sem hafa áhuga á því að klófesta hann fari sömu leið og Manchester United. Evrópsk stórlið á borð við Real Madrid og Bayern München eru sögð áhugasöm.

Harry Kane er sem áður segir markahæsti leikmaður enska landsliðsins frá upphafi með 55 mörk í 82 leikjum. Þá er hann næstmarkahæsti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar frá upphafi með 213 mörk í 317 leikjum fyrir Tottenham.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×