Það er þess vegna gleðilegt að heyra að nokkrir veiðimenn sem Veiðivísir hefur heyrt frá eru búnir að vera í fínni veiði í vatninu undanfarna daga þrátt fyrir misjafnar aðstæður. Þeir sem hafa verið duglegastir eru að fá allt að tíu bleikjur yfir daginn og í þessari kjörstærð fyrir bæði pönnuna og í reyk, 45-50 sm bleikjur, feitar og vel haldnar. Mönnum hefur sýnst vera töluvert af bleikju og veiðin hefur verið við báða bakka vatnsins sem er sérstakt á þessum tíma þegar hraunið gefur yfirleitt best. Bleikjan er eins og venjulega mikið að taka flugur með grænu í og þá oft nokkuð neðarlega í vatninu, þá eru menn að nota þyngdar flugur eða sökkenda.
