Hægt verður að fylgjast með fundinum í spilaranum að neðan.
Í tilkynningu frá innviðaráðuneytinu kemur fram að þingsályktunartillagan verði birt í samráðsgátt stjórnvalda eftir fundinn, en til stendur að leggja hana fram á Alþingi í haust.
Með samgönguáætlun setja stjórnvöld fram stefnu og markmið fyrir allar greinar samgangna og skal áætlun lögð fram á að lágmarki þriggja ára fresti.
Á vef ráðuneytisins segir að samgönguáætlun taki til stefnu, fjáröflunar og útgjalda allra greina samgangna, það er flugmála, vegamála og siglingamála, þar með talið almenningssamgangna, hafnamála, sjóvarna, öryggismála og umhverfismála samgöngugreina. „Þar skal skilgreina það grunnkerfi sem ætlað er að bera meginþunga samgangna og gera grein fyrir ástandi og horfum í samgöngum í landinu. Við gerð samgönguáætlunar skal m.a. byggja á þeim meginmarkmiðum að samgöngur séu greiðar, hagkvæmar, öruggar og umhverfislega sjálfbærar auk þess sem þær stuðli að jákvæðri byggðaþróun.“