Í tilkynningu frá Rannsóknarsetri verslunarinnar segir að verð uppfærist einu sinni á sólarhring samhliða gagnaskilum frá verslunum. Neytendur geti sett upp sína eigin matarkörfu, með því að velja þær vörur og það magn sem hentar þeirra innkaupum. Þannig geta neytendur borið saman verð sinnar matarkörfu á milli verslana.
Verslanirnar sjá sjálfar um að skila verði til Rannsóknarseturs verslunarinnar.
Verðgáttin er liður í samkomulagi aðila vinnumarkaðarins um að fylgjast náið með þróun verðlags helstu neysluvara í samstarfi við Rannsóknarsetur verslunarinnar.
Sem hluti af aðgerðum ríkisstjórnarinnar til stuðnings kjarasamninga á almennum vinnumarkaði studdi menningar- og viðskiptaráðuneytið Rannsóknasetur Verslunarinnar (RSV) um 10 milljónir króna til framkvæmdar verkefnisins.
„Með Verðgáttinni er aðgengi almennings að upplýsingum um þróun verðlags aukið og þannig stuðlað að auknu aðhaldi á neytendamarkaði,“ segir Magnús Sigurbjörnsson forstöðumaður RSV í tilkynningu.
Fréttastofa prófaði að smella einu eintaki í matvörukörfuna af öllu því sem hægt er að bera saman. Karfan í Bónus kostar 42.294 krónur, 42.311 krónur í Krónunni og 42.136 krónur í Nettó. Munurinn á verði í verslununum þremur, miðað við upplýsingarnar sem birtast í Verðgáttinni í dag, virðist því afar lítill.