Tvö hræ af fullvaxta kúm sem fundust í aprílbyrjun í Ásólfsskálafjöru í Rangárþingi eystra hafa ekki enn þá verið fjarlægð. Stórt hræ af hnúfbak liggur spölkorn frá, en það hræ fannst á sama tíma.
Bóndi á nærliggjandi bæ fann hræin tvö og þótti málið allt hið dularfyllsta. Kýrnar voru ómerktar og þorðu menn ekki að grafa hræin ef ske kynni að dýrin hefðu drepist úr einhvers konar smitsjúkdómi.
Héraðsdýralæknir taldi það hins vegar nánast útilokað vegna árstímans. Ekki væru margir gripir útigangandi á þessum tíma.
Gátan leyst
Daginn eftir fannst þriðja hræið í fjörunni austan við Markarfljót, af eyrnamerktum kálfi sennilega veturgömlum. Hið fjórða fannst svo í Víkurfjöru nokkrum dögum síðar.
Lögreglan hóf rannsókn og komst að því að kýrnar höfðu týnst í óveðri í marsmánuði. Talið er að þær hafi fallið í gegnum ís, drukknað og rekið á haf út. Alls höfðu sex kýr horfið og tveggja er enn saknað.
Vond lykt
Kýrnar í Ásólfsskálafjöru eru hins vegar ekki þessar tvær sem er saknað heldur þær tvær sem fundust fyrst, búnar að liggja dauðar í meira en tvo mánuði og komin er rotnunarlykt af þeim.
Ferðamannastraumurinn í fjörunni er sífellt að aukast og þykir sveitungum lítið prýði af þessu og vond landkynning. Ekki er betri lyktin af hnúfubaknum sem deilir fjörunni með þeim.


