Þjónustu goðsagna félagsins, þeim Oliver Kahn sem sinnti hlutverki framkvæmdastjóra þess og Hasan Salihamidzic yfirmanni knattspyrnumála, er ekki lengur óskað.
Þetta kom fram í yfirlýsingu frá Bayern Munchen aðeins nokkrum klukkustundum eftir að liðið hafði tryggt sér Þýskalandsmeistaratitilinn.
Jan-Christian Dreesen mun taka yfir hlutverk Kahn sem framkvæmdastjóri félagsins en leit að eftirmanni Salihamidzic stendur nú yfir.
Það hefur mikið gengið á hjá Bayern Munchen á yfirstandandi tímabili. Knattspyrnustjóranum Julian Nagelsmann var fyrr á tímabilinu sagt upp störfum og tók Thomas Tuchel við stjórnartaumunum.
Bayern lenti hins vegar í basli með úrslit í þýsku úrvalsdeildinni og hafði ekki örlögin í sínum eigin höndum fyrir lokaumferð deildarinnar í dag.
Dortmund, sem hafði örlögin í sínum höndum, mistókst hins vegar að gera sér mat út því. Liðið gerði 2-2 jafntefli við Mainz á heimavelli og Bayern Munchen greip gæsina, vann 2-1 sigur á útivelli gegn Köln og tryggði sér um leið efsta sæti þýsku úrvalsdeildarinnar.