Á vef Veðurstofunnar segir að gera megi ráð fyrir austlægri átt en að vindur nái sér ekki á strik, nema helst að það blási aðeins með suðurströndinni.
„Í dag geta dálitlar skúrir fallið á sunnanverðu landinu, en yfirleitt þurrt norðantil. Hiti 4 til 10 stig yfir daginn. Á morgun ætti hins vegar að vera þurrt á öllu landinu.
Á fimmtudag berst til okkar rakara loft þegar líður á daginn og má þá búast við dálítilli rigningu nokkuð víða. Norðanlands verður hins vegar áfram þurrt,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á miðvikudag: Austan 8-13 m/s syðst, en hægari annars staðar. Skýjað með köflum og yfirleitt þurrt, en bjartviðri norðanlands. Hiti 3 til 9 stig yfir daginn.
Á fimmtudag: Austan og suðaustan 3-8, en 8-13 með suðurströndinni. Skýjað og dálítil rigning suðaustantil, en bjart með köflum norðan heiða. Hiti 5 til 10 stig.
Á föstudag, laugardag og sunnudag: Austlæg átt og rigning öðru hverju, en úrkomulítið norðanlands. Hiti á bilinu 6 til 13 stig að deginum.
Á mánudag: Austlæg eða breytileg átt og víða skýjað, en þurrt að kalla. Hiti breytist lítið.