Í hugleiðingum veðurfræðings hjá Veðurstofunni segir að hvassast verði á Austfjörðum, allt að fimmtán metrar á sekúndu.
„Núna í morgunsárið er létt- eða hálfskýjað í öllum landshlutum en er líður á daginn þykknar upp sunnantil og líkur á stöku skúr eða slydduél á Suðausturlandi. Hiti 0 til 8 stig, svalast norðaustanlands, en hlýjast með suðurströndinni. Líkt og gjarnan fylgir bjartviðri á þessum tíma árs er þó víða von á næturfrosti,“ segir á vef Veðurstofunnar.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á sunnudag:
Norðlæg átt, 5-13 m/s, hvassast með norður- og norðausturströndinni. Bjartviðri framan af degi, en þykknar upp með stöku él á norðanverðu landinu seinni partinn. Vægt frost norðantil, en hiti annars 1 til 7 stig.
Á mánudag:
Norðlæg eða breytileg átt, 3-8 m/s. Lítilsháttar él og vægt frost á Norður- og Austurlandi, en annars bjart með köflum og hiti að 5 stigum.
Á þriðjudag og miðvikudag:
Hæg breytileg átt og skýjað með köflum, en austanstrekkingur og stöku skúr við suðurströndina. Hiti 0 til 7 stig, svalast norðaustanlands.
Á fimmtudag:
Útlit fyrir suðlæga átt með rigningu og hlýnandi veðri, en þurrt að kalla norðaustanlands.
Á föstudag:
Líklega suðlæg átt og skúrir á víð og dreif. Hlýnandi veður.