Tottenham heimsótti Newcastle í afar mikilvægum leik í baráttunni um Meistaradeildarsæti síðastliðinn sunnudag. Það var þó ekki að sjá á leikmönnum Tottenham að mikið væri undir í leiknum því liðið fékk á sig fimm mörk á fyrstu tuttugu mínútum leiksins og tapaði að lokum 6-1. Andlaus frammistaða er líklega ekki nægilega sterk lýsing á því sem liðsmenn Tottenham buðu stuðninsgmönnum sínum upp á.
Raunar var frammistaða liðsins svo slæm að bráðabirgðastjórinn Cristian Stellini, sem hafði verið í þjálfarateymi Antonio Conte, var rekinn daginn eftir leikinn. Hann hafði aðeins stýrt liðinu í fjórum leikjum.
Leikmenn Tottenham hafa nú sent frá sér yfirlýsingu þar sem þeir bjóðast til að endurgreiða stuðningsmönnum liðsins fyrir miðakaupin á leikinn.
„Sem lið skiljum við pirringinn og reiðina. Við vitum að það sem við segjum mun ekki bæta fyrir þetta, en svona tap svíður,“ segir í yfirlýsingu leikmanna.
„Við kunnum að meta ykkar stuðning, heima og að heiman, og með það í huga viljum við endurgreiða stuðningsmönnum miðaverðið á St. James' Park. Við vitum að það mun ekki breyta því sem gerðist á sunnudaginn og við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að bæta upp fyrir þetta gegn Manchester United á fimmtudaginn þar sem stuðningur ykkar mun enn og aftur skipta okkur öllu máli.“
The players have a message for our fans who went to Newcastle on Sunday... pic.twitter.com/HFfmo8R2iH
— Tottenham Hotspur (@SpursOfficial) April 25, 2023
Tottenham tekur á móti Manchester United í ensku úrvalsdeildinni næstkomandi fimmtudagskvöld í leik sem Lundúnaliðið verður einfaldlega að vinna til að halda veikri von sinni um sæti í Meistaradeild Evrópu á næsta tímabili á lífi.