Körfubolti

Oddaleikur eða sumarfrí?

Jón Már Ferro skrifar
Mikið mun mæða á Kára Jónssyni í kvöld.
Mikið mun mæða á Kára Jónssyni í kvöld. Vísir/Vilhelm

Stjarnan fær Val í heimsókn í Umhyggjuhöllina í kvöld í fjórða leik liðanna í 8-liða úrslitum úrslitakeppni Subway deildar karla. Leikurinn hefst klukkan 19:15 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 sport.

Staðan í einvíginu er 2-1 fyrir Val. Fyrsta leikinn vann Stjarnan óvænt, sérstaklega í ljósi þess að liðið endaði í 8. sæti deildarinnar og rétt skreið inn í úrslitakeppnina.

Annan leikinn vann Valur sannfærandi en þriðji leikurinn var öllu jafnari. Stjarnan komst meðal annars í tíu stiga forystu en frábær endasprettur Vals og þá sérstaklega Kára Jónssonar tryggði Íslandsmeisturunum sigur.

Búast má við rosalegum leik í kvöld þar sem Stjarnan leggur allt í sölurnar. Einn allra besti körfuboltamaður Íslands, Kristófer Acox, er meiddur á kálfa og tekur ekki þátt í leiknum í kvöld. Kári segir fjarveru Kristófers mikla blóðtöku fyrir Valsmenn vegna þess að hann sé þeirra helsti maður og taki mikið af fráköstum. Kári segir aðra leikmenn einfaldlega þurfa að stíga upp og fylla í skarð Kristófers.

Kristófer Acox þarf að treysta á liðsfélaga sína í kvöld.Vísir/Hulda Margrét

Sem stendur er Kristófer í meðhöndlun hjá Heilsu og Útlit við kálfameiðslunum sem hann varð fyrir í síðasta leik. Í samtali við íþróttadeild segir Kristófer liðsfélaga sína þurfi að eiga algjöran topp leik til að vinna leikinn í kvöld. Hann segir það ekki hafa komið sér á óvart hversu góðir Stjörnumenn eru þrátt fyrir að hafa endað í 8. sæti deildarinnar.

Kristófer segir óvíst hvenær hann verður góður af meiðslunum og veit því ekki hvenær hann kemst aftur á völlinn.

Sigur Vals þýðir að þeir eru komnir í undanúrslit. Ef Stjarnan vinnur spila liðin oddaleik til að skera úr um hvort liðið fer áfram næskomandi mánudag.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×