Það verður seint sagt að starfsöryggi sé í hávegum haft hjá knattspyrnuþjálfurum og þá sérstaklega þeim sem starfa fyrir Watford. Undanfarin ár hefur eigandi liðsins, Gino Pozzo, skipt um þjálfara líkt og hefðbundið fólk skiptir um nærbuxur.
Wilder tók við af Slaven Bilić í mars en hefur ekki tekið að snúa gengið liðsins við. Í gær, miðvikudag, fór orðrómur á kreik um að starf hans væri í hættu og fann Watford sig knúið til að gefa út yfirlýsingu.
„Chris Wilder mun sinna starfi aðalþjálfara þangað til loka tímabils hið minnsta. Orðrómurinn er vanvirðing gagnvart Chris og starfsliði hans,“ sagði Ben Manga, tæknilegur ráðgjafi Watford.
The Hornets confirm Chris Wilder will remain the club s Head Coach until at least the end of the 2022/23 season, as per the terms he and Watford FC agreed upon his appointment in March.
— Watford Football Club (@WatfordFC) April 12, 2023
The Athletic greindi á sama tíma frá því að Watford væri þegar farið að pissa utan í hinn 34 ára gamla Francesco Farioli en hann stýrði síðast liði Rúnars Alex Rúnarssonar, Alanyaspor í Tyrklandi. Farioli var látinn fara þaðan í febrúar en er einkar eftirsóttur.
Hvort það heilli að taka við liði sem skiptir jafn oft um þjálfara og raun ber vitni á svo eftir að koma í ljós. Fari svo að Watford losi sig við Wilder verður Watford í leit að sínum níunda þjálfara síðan árið 2020.