Mohamad, sem er 24 ára, kom til reynslu hjá HamKam á föstudaginn og var hugsaður sem möguleg lausn vegna meiðsla Halvor Opsahl.
Félagið losaði sig hins vegar við hann strax á laugardaginn, eftir að hafa komist að því af hverju Mohamad var látinn fara frá sínu síðasta félagsliði, GAIS í Svíþjóð, eftir skamma dvöl um síðustu áramót.
Það var vegna stuðnings hans við Andrew Tate, sem lýst hefur verið sem holdgervingi eitraðrar karlmennsku og er nú til rannsóknar ásamt bróður sínum, sakaður um að hafa haldið konum föngnum sem þrælum og neytt þær í að framleiða klám.
Stjórn HamKam var fljót að taka ákvörðun um að losa sig við Mohamad en Bent Svele, framkvæmdastjóri félagsins, viðurkennir að félagið hefði getað vandað sig betur við heimavinnuna áður en að þessum samningslausa leikmanni var boðið að koma til reynslu.
„Þessar skoðanir og stuðningur við Andrew Tate rímar ekki við þau gildi sem félagið vill standa fyrir, og þau skilaboð fékk hann í gær og fór heim,“ sagði Svele við NRK á sunnudag.
„Félagaskiptaglugginn var lokaður svo að við þurftum að finna leikmann sem var ekki samningsbundinn öðru félagi. Þá dúkka upp leikmenn og við bjóðum þeim til reynslu en skoðum ekki ítarlega bakgrunn þeirra. Það má vel vera að við hefðum átt að komast að þessu fyrr, áður en hann kom, en svona var þetta nú,“ sagði Svele.
Mohamad hefur ekki tjáð sig um málið en birti mynd af sér á Instagram þar sem hann sagði að ef hann myndi segja eitthvað þá myndi hann lenda í miklum vandræðum.