Í dag má búast við nokkuð hvassri suðaustanátt og að slái í storm suðvestanlands. Þess vegna hafa gular veðurviðvaranir verið gefnar út.
Á vef Veðurstofu Íslands segir að gul viðvörun taki gildi á höfuðborgarsvæðinu klukkan 15 og gildi til klukkan 19. Þar megi búast við suðaustan 18 til 23 metrum á sekúndu og fólk er hvatt til að tryggja lausamuni.
Á Suðurlandi megi gera ráð fyrir suðaustan stormi, 15 til 25 metrum á sekúndu og vindkviðum yfir þrjátíu metrum á sekúndu, hvassast við ströndina. Þar verður gul viðvörun í gildi á milli klukkan 14 og 18:30 og varasamt ferðaveður.
Á Faxaflóa verður gul viðvörun í gildi á milli klukkan 14 og 19. Þar verður suðaustan stormur, 18 til 25 metrar á sekúndu og vindhviður staðbundið yfir 35 metrum á sekúndu, til dæmis á Kjalarnesi og undir Hafnarfjalli. Varasamt ferðaveður.
Hvessir aftur á páskadag
Í hugleiðingum veðurfræðings segir að á morgun verði milt í veðri. Suðaustan kaldi eða stinningskaldi, þurrt norðanlands og bjart með köflum, annars skúrir en rigning suðaustantil.
Hins vegar sé áfram útlit fyrir lægð og suðaustanátt á páskasunnudag með rigningu syðra en lítilli sem engri úrkomu norðan heiða.
Veðurhorfur næstu daga:
Á laugardag:
Suðaustan 8-15 m/s. Þurrt að kalla norðanlands, annars skúrir en rigning suðaustantil. Hiti 3 til 10 stig.
Á sunnudag (páskadagur):
Gengur í allhvassa eða hvassa austan- og suðaustanátt. Rigning, einkum um landið suðaustanvert, en yfirleitt þurrt á Vestfjörðum og Norðurlandi. Hiti 4 til 12 stig. Dregur úr vindi um kvöldið.
Á mánudag (annar í páskum) og þriðjudag:
Austlæg átt og rigning með köflum eða skúrir, en slydda austantil á þriðjudag. Heldur kólnandi.
Á miðvikudag:
Breytileg átt og dálítil rigning eða slydda í flestum landshlutum. Hiti 1 til 6 stig yfir daginn.
Á fimmtudag:
Líklega norðlæg átt og úrkomulítið.