Í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofunnar segir að búist sé við fremur hægri suðlægri átt í dag með stöku skúrum eða éljum á landinu. Hiti er í kringum frostmark nú í morgunsárið en kemst víða í 5 til 7 stig yfir hádaginn.
Í nótt nálgast lægð með vaxandi suðaustanátt. Allhvasst eða hvasst á morgun og jafnvel stormur suðvestanlands. Þessu fylgir rigning sunnan- og vestantil á landinu og hlýnandi veður.
Áfram suðaustanátt á laugardag, en talsvert hægari vindur. Rigning eða skúrir og milt veður, en yfirleitt þurrt á Norðurlandi.
Veðurhorfur næstu daga:
Á föstudag (föstudagurinn langi):
Gengur í suðaustan 13-23 m/s og hlýnar með rigningu, hvassast um landið suðvestanvert. Úrkomulítið á Norður- og Norðausturlandi. Hiti 4 til 11 stig eftir hádegi.
Á laugardag:
Suðaustan 8-15. Þurrt að kalla norðanlands, annars skúrir, en rigning suðaustantil. Hiti 3 til 10 stig.
Á sunnudag (páskadagur):
Suðaustan og austan 10-18, hvassast við suðurströndina. Rigning með köflum, einkum suðaustanlands, en þurrt um landið norðanvert. Áfram milt í veðri.
Á mánudag (annar í páskum):
Austlæg átt og rigning sunnantil, en víða rigning eða slydda um kvöldið. Kólnandi veður.
Á þriðjudag:
Snýst í suðlæga átt. Rigning eða slydda, en þurrt á Austurlandi. Stöku skúrir eða él sunnan- og vestanlands um kvöldið. Hiti 1 til 5 stig að deginum.
Á miðvikudag:
Útlit fyrir norðaustanátt með rigningu eða slyddu austanlands.