Tiger er á meðal keppenda á Masters sem hefst á Augusta National vellinum á morgun. Þetta er í 25. sinn sem hann tekur þátt á mótinu og hugsanlega í síðasta sinn.
„Ég veit ekki hversu mörg mót ég get spilað í viðbót. Ég nýt bara tímans og varðveiti minningarnar,“ sagði Tiger sem lenti í alvarlegu bílslysi 2021 en sneri aftur á Masters í fyrra.
„Ég er mjög heppinn að vera enn með fótinn. Hreyfigetan og úthaldið verður aldrei það sama. Ég get ekki undirbúið mig og spilað á jafn mörgum mótum og ég vil en ég sætti mig við það.“
Tiger hefur fimm sinnum unnið Masters á ferlinum, síðast 2019. Það var hans fyrsti sigur á risamóti síðan 2008.
Sýnt verður frá öllum keppnisdögum á Masters á Stöð 2 Sport 4. Dagskráin hefst með Par 3 keppninni í kvöld.