Í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar segir að það verði allhvass vindur syðst, en hægari annars staðar. Í kvöld nálgist svo skil sem fylgi lægðinni og bætir þá í vindinn syðst og byrjar að snjóa þar.
„Í nótt og á morgun stefnir í austan hvassviðri eða storm með suðurströndinni þar sem hvassast verður undir Eyjafjöllum og í kringum Öræfi. Með þessu fylgir líklega snjókoma og skafrenningur svo búast má við lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum.
Þegar líður á morgundaginn hlýnar í veðri þegar hlýr loftmassi kemur úr suðri og breytist þá úrkoman yfir í slyddu eða rigningu á sunnanverðu landinu.
Annað kvöld færist síðan úrkomubakki yfir suðaustanvert landið og Austfirði og má búast við talsverðri slyddu eða snjókomu þar fram á fimmtudag,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á miðvikudag: Austan og norðaustan 8-15 m/s, en 15-23 syðst. Snjókoma með köflum, en hlýnar á Suður- og Vesturlandi þegar líður á daginn með rigningu eða slyddu. Hiti 0 til 6 stig seinnipartinn. Líkur á talsverðri slyddu eða snjókomu austast á landinu um kvöldið.
Á fimmtudag: Austlæg átt 13-23 m/s, en hægari vestanlands. Rigning eða slydda með köflum á Suður- og Vesturlandi, en talsverð slydda eða snjókoma austantil á landinu. Hiti breytist lítið.
Á föstudag: Suðaustan og austan 5-15 m/s þegar líður á daginn. Víða rigning eða slydda, en snjókoma með köflum um landið norðanvert. Hiti 0 til 6 stig.
Á laugardag: Austlæg átt 5-13 m/s og skúrir eða él, en samfelld úrkoma um landið suðaustanvert. Hiti um og yfir frostmarki.
Á sunnudag: Suðlæg átt og dálitlar skúrir eða él. Heldur hlýnandi.
Á mánudag: Hæg suðlæg átt og úrkomulítið. Hiti 1 til 7 stig.