Það hefur töluvert mætt á Ágústi síðustu daga en hann stýrði íslenska karlalandsliðinu ásamt Gunnari Magnússyni í leikjunum tveimur við Tékka en þar á milli átti lið hans Valur, afar mikilvægan leik gegn Stjörnunni í Olís-deild kvenna.
Eftir vonbrigðin hjá landsliðinu í Tékklandi var helgin honum afar góð þar sem Valur vann Stjörnuna á laugardegi og Ísland vann stórsigur á Tékkum á sunnudegi.

„Það er búið að vera nóg að gera síðustu vikurnar þannig að ég er spenntur að fara núna inn í bikarinn.“
„Ég er í það góðu formi að það er ekkert mál,“ sagði Ágúst og glotti við tönn er hann var spurður út í það hvort þetta álag væri á menn leggjandi.
Valur mætir Haukum í undanúrslitum bikarkeppninnar á morgun en ljóst er að liðið verður án Söru Sifjar Helgadóttur sem líklega er frá út leiktíðina vegna krossbandsmeiðsla sem hún hlaut í sigrinum á Stjörnunnni.
„Við höfum spilað hörkuleiki við Haukana á þessu tímabili. Við vitum að við þurfum að undirbúa okkur mjög vel og mæta þeim af fullum krafti. Þurfum góða frammistöðu til að fara í gegnum þær.“
„Því miður, hún er dottin út og ólíklegt að hún taki meiri þátt á tímabilinu. Við erum með tvo aðra markmenn sem munu taka markið. Erum með sterkan, breiðan og góðan hóp. Munum þétta raðirnar og reyna að hjálpast að við að fylla hennar skarð,“ sagði Ágúst um meiðsli Söru Sifjar að endingu.