Leikur liðanna fór fram 23. febrúar síðastliðinn á Philips Stadion í Eindhoven. PSV vann leikinn 2-0 en tapaði einvíginu samanlagt 3-2 eftir 3-0 sigur Sevilla í fyrri leiknum í Andalúsíu.
Stuðningsmaðurinn hljóp inn á völlinn og reyndi að kýla Dmitrovic en hitti ekki. Dmitrovic náði þá að tækla manninn í grasið og hélt honum niðri með hjálp leikmanna PSV þar til öryggisverðir færðu hann af velli.
„Það er aldrei gott að sjá svona í fótbolta. Þetta ætti ekki að gerast og ég vona að hann fái viðeigandi refsingu,“ sagði Dmitrovic eftir leikinn.
Stuðningsmaðurinn hefur nú hlotið sína refsingu fyrir. Hann var dæmdur í þriggja mánaða fangelsi af hollenskum dómstólum, en einn þeirra mánaða er skilorðsbundinn. Jafnframt var hann dæmdur í tveggja ára bann frá Philips Stadion, heimavelli PSV.
Eftir atvikið kom í ljós að maðurinn átti ekkert erindi þangað þar sem hann var þá þegar í banni frá vellinum vegna tveggja annara brota tengd fótbolta.
Þú hljópst inn á völlinn undir áhrifum áfengis með það fyrir augum að ráðast á fótboltamann, sagði dómarinn í málinu við þann seka. Það sýnir fullkomið virðingarleysi fyrir fórnarlambinu og sönnum stuðningsmönnum PSV. Þú kallar sjálfan þig fótboltaaðdáanda en þetta hefur ekkert með fótbolta að gera, sagði hann jafnframt.