Handbolti

HK í Olís-deildina á ný

Smári Jökull Jónsson skrifar
HK er komið í Olís-deildina á nýjan leik.
HK er komið í Olís-deildina á nýjan leik. Vísir/Vilhelm

HK tryggði sér í gærkvöldi sæti í Olís-deildinni í handknattleik á nýjan leik þegar liðið lagði Víking í Grill66-deildinni.

HK hefur gengið frábærlega í Grill66-deildinni á tímabilinu og unnið fjórtán af fimmtán leikjum sínum. Í gær mætti liðið Víkingi í uppgjöri tveggja efstu liða deildarinnar en HK var með sex stiga forskot á Víkinga fyrir leikinn og ljóst að sigur myndi tryggja þeim sæti í efstu deild.

Sú varð raunin. HK vann 30-28 á heimavelli Víkinga í Safamýri eftir að hafa leitt nánast allan leikinn. Víkingar komust þó í forystu þegar fimmtán mínútur voru eftir og leiddu með tveimur mörkum þegar sex mínútur lifðu leiks en HK átti góðan endasprett og tryggði sér stigin tvö.

Símon Michael Guðjónsson var markahæstur hjá HK með tíu mörk og Júlíus Flosason skoraði átta. Hjá Víkingum skoraði Styrmir Sigurðarson mest eða sex mörk.

Sebastian Alexandersson og Guðfinnur Kristmannsson eru þjálfarar HK og fara því upp með liðið sem þeir féllu með úr Olís-deildinni á síðustu leiktíð.

Tvö lið fara upp úr deildinni en liðin í 2.-5.sæti taka þátt í umspili um hitt sætið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×