Tilfinningagreind felur í sér að vera opin fyrir eigin og annarra tilfinningum ásamt því að kunna að meta tilfinningar í umhverfinu, setja þærí samhengi og hafa stjórn á tilfinningum,“ segir Guðrún Snorradóttir stjórnendaþjálfi meðal annars um tilfinningagreind í viðtali við Atvinnulífið fyrir nokkru.
En ef tilfinningagreind er svona mikilvæg sem eftirsóttur eiginleiki, hvernig getum við áttað okkur á því hvort okkur skorti tilfinningagreind eða ættum að horfa til þess að efla hana hjá okkur?
Hér eru sjö atriði sem við getum horft til sem vísbendingar um að við ættum að reyna að efla tilfinningagreindina okkar í starfi:
- Þér finnst oft eins og annað fólk eigi erfitt með að skilja hvað þú átt við.
- Þér finnst oft eins og það sé öðrum að kenna ef eitthvað fer úrskeiðis.
- Þú átt ekki auðvelt með að lesa í fólk og átta þig á því hvernig það er.
- Þú ert oft svekkt/ur yfir því að fólk skilji þig ekki betur.
- Þú ert oft hissa á því sem þú heyrir um eða kemst að um annað fólk (sbr. þú átt erfitt með að lesa í fólk sjálf/ur)
- Samkennd er þér ekki eðlislæg, að finna til með öðrum eða að samgleðjast með öðrum.
- Þú átt ekki auðvelt með að tengjast öðru fólki nánum böndum.
Það er margt jákvætt sem getur fylgt því að efla tilfinningagreindina okkar. Ekki aðeins í vinnunni eða fyrir starfsframann. Því almennt getur það hjálpað okkur í samskiptum, við eigum auðveldara með að vinna með öðru fólki og erum líklegri til að mynda ný vinatengsl. Já, okkur fer að ganga betur og líða betur...
Það erfiða er að sumum einstaklingum sem skortir tilfinningagreind finnst þeir almennt alltaf hafa rétt fyrir sér, það sé því frekar annarra að breyta hjá sér. Með öðrum orðum: Þeir upplifa sjálfan sig sem miðpunkt alheimsins og það sem allt á að snúast í kringum. En þá er gott að muna að í öllu þarf alltaf tvo til að dansa tangó...