Pavel er sagður ætla að styrkja bönd við Evrópusambandið og heitir meiri stuðning við Úkraínu. Nýkjörinn forsetinn er mjög hlynntur Vesturlöndum og segja stjórnmálafræðingar ytra að kjörið muni fela í sér miklar breytingar á stjórn Tékka.
Andrej Babiš sem er vellauðugur háði harða kosningabaráttu og sakaði Pavel um að vera stríðsæsingamaður.
Ríkisstjórn Babiš féll í október 2021 en þá hafði hann staðið af sér margs konar hneykslismál. Meðal annars leiddu Pandóruskjölin í ljós að hann hafi stundað vafasama viðskiptahætti. Flokkur Babiš er gagnrýninn á Evrópusambandið, segir ógn stafa af flóttafólki. Þá hefur hann einnig stutt Rússa í innrásinni í Úkraínu.
„Kjörið mun hafa miklar breytingar í för með sér. Síðustu tíu ár höfum við verið með forseta sem kasta rýrð á landið og íbúa þess. Babiš var fylgjandi Rússum, gerði viðskiptaþvinganir gegn Rússum að engu, sniðgekk stjórnarskrána og var ruddi,“ segir Jiří Pehe, stjórnmálagreinandi og forstjóri New York University í Prag.
Pehe segir nýja forsetann lofa mjög góðu. Hann sé alþýðlegur og jarðbundinn og hafi vestræn gildi, að því er fram kemur í umfjöllun Guardian.