Norður-Lundúnaslagir Arsenal og Tottenham eru yfirleitt heitir enda mikill rígur á milli félaganna. Arsenal vann 2-0 sigur í leiknum í dag en það er atvik sem gerðist eftir leik sem flestir eru að ræða.
Þegar flautað var til leiksloka í dag hljóp Brasilíumaðurinn Richarlison, leikmaður Tottenham, að Ramsdale og virtist ýta í höfuð Ramsdale þegar hann gekk í átt að stuðningsmönnum Tottenham til að sækja brúsa sinn fyrir aftan markið.
Öryggisverðir og liðsfélagar fylgdu Ramsdale eftir en þegar markvörðurinn knái beygði sig til að taka upp brúsann kom stuðningsmaður Tottenham aðvífandi úr stúkunni og sparkaði í bak Ramsdale.
Lifetime ban imminent for Spurs fan who kicks Aaron Ramsdale. Stupidity of the highest order. Not great from Richarlison either. pic.twitter.com/gHf8H9nUif
— Ryan Taylor (@RyanTaylorSport) January 15, 2023
Ljóst er að þetta atvik mun hafa einhverja eftirmála en sjálfur sagði Ramsdale í viðtali við Skysports eftir leik að hann hefði verið aðeins að rífast við stuðningsmenn Tottenham í leiknum.
„Stuðningsmenn Spurs voru að ögra mér í seinni hálfleiknum og ég svaraði til baka. Þeir fáu sem ég gerði það við tóku því vel. Síðan stökk einn stuðningsmaður yfir og kýldi létt í bakið á mér. Þetta er synd því þetta er bara fótboltaleikur,“ sagði Ramsdale eftir leik.