Fyrir leikinn í kvöld var PAOK í fjórða sætinu, þremur stigum á eftir stórliði Olympiacos en Panathinaikos er efst og með ágæta forystu á toppnum.
Sverrir Ingi var í byrjunarliði PAOK og reyndist hetja liðsins í kvöld því hann skoraði eina markið í 1-0 sigri. Markið kom í uppbótartíma fyrri hálfleiks en myndbandsdómgæslu þurfti til að skera úr um hvort markið stæði. Fyrr í leiknum hafði Stefan Schwab misnotað vítaspyrnu fyrir PAOK.
Goal! #TheIceman #Ingason strikes! #PAOKARIS 1 - 0 #slgr pic.twitter.com/Fx025k9yua
— PAOK FC (@PAOK_FC) January 4, 2023
Aris tókst ekki að jafna í síðari hálfleiknum og Sverrir Ingi og félagar gátu því fagnað góðum sigri. Þeir jafna þar með Olympiacos að stigum í 3.-4.sæti deildarinnar en eru tíu stigum á eftir toppliði Panathinaikos.
Sverrir Ingi gekk til liðs við PAOK árið 2019 og hefur leikið rúmlega níutíu leiki fyrir félagið.