Borgarstjórinn Vitaly Klitschko segir orkuinnviði hafa verið meðal skotmarka Rússa, með þeim afleiðingum að rafmagn fór af á sumum svæðum.
Hermálayfirvöld í austurhluta Úkraínu segja loftvarnakerfi hafa skotið niður níu íranska Shahed dróna yfir Dnipropetrovsk og Zaporizhzhia í nótt.
Um var að ræða aðra nóttina í röð þar sem Rússar gerðu árásir á Kænugarð og aðrar borgir í Úkraínu en þrír létust í árásunum á nýársnótt.
Rússneska varnarmálráðuneytið sagði að skotmörk Rússa hefðu verið innviðir Úkraínu til framleiðslu dróna en Mykhailo Podolyak, ráðgjafi Vólódímírs Selenskís Úkraínuforseta sagði skotmörkin þvert á móti hafa verið þéttbýli í stórborgum landins.
Þetta væri til marks um breyttar áherslur Rússa; þeir hefðu gefist upp á hernaðarlegum markmiðum sínum og einblíndu nú á að geta myrt eins marga almenna borgara og þeir gætu.
Úkraínsk hermálayfirvöld segja Rússa leggja drög að annarri innrás inn í norðurhluta landsins á næstu tveimur mánuðum. Hefur febrúar verið nefndur í þessu samhengi. Úkraínumenn segjast munu verða viðbúnir.