Suu Kyi hefur setið í stofufangelsi frá því herforingjarnir tóku aftur öll völd í landinu í febrúar á síðasta ári. Síðustu átján mánuði hefur hún síðan verið fyrir rétti, ákærð í nítján liðum en mannréttindasamtök víða fullyrða að um sýndarréttarhöld sé að ræða.
Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna ályktaði síðast í síðustu viku að henni ætti að sleppa úr fangelsi en herforingjastjórnin virðist ekki hafa hlustað á þau áköll. Í morgun var hún fundin sek um spillingu þar sem hún hafi ekki fylgt reglum um leigu á þyrlu fyrir ráðherra í ríkisstjórninni.
Á meðal annarra brota sem hún hefur verið sakfelld fyrir má nefna brot á kórónuveirureglum, innflutning á talstöðvum án leyfis og brot á lögum um ríkisleyndarmál.
Fjöldi stuðningsmanna hennar hefur einnig verið hnepptur í varðhald síðustu misserin í Mjanmar og telja mannnréttindasamtök að tæplega sautján þúsund manns hafi verið handtekin og af þeim séu þrettán þúsund enn í fangelsi.