Í fréttum Stöðvar 2 mátti sjá þegar Mette Frederiksen birtist í dyrum Amalienborgar í Kaupmannahöfn með ráðherrahópinn eftir að hafa kynnt Margréti Danadrottningu ríkisstjórn sína í morgun. Við hlið hennar stóðu leiðtogar nýju samstarfsflokkanna, þeir Jakob Ellemann-Jensen, sem verður varnarmálaráðherra, og Lars Løkke Rasmussen, sem verður utanríkisráðherra.

Venjan í Danmörku, eins og í Noregi og Svíþjóð, hefur verið sú að þar væri annaðhvort vinstri eða hægri stjórn. Með því að velja núna samstarf yfir miðjuna með miðju og hægri flokkum hefur Mette Frederiksen brotið upp þetta hefðbundna mynstur og sagði Mai Villadsen, talsmaður Enhedslisten, eins vinstri flokkanna, að Mette hefði núna tekið kröftuga hægri beygju.
„Við stöndum frammi fyrir þeirri sérstöku stöðu að nú er komin við völd ríkisstjórn með meirihluta,“ sagði Mette Frederiksen á fundi með fréttamönnum í forsætisráðherrabústaðnum Marienborg.

Jakob Ellemann-Jensen er formaður Venstre en þrátt fyrir nafnið telst flokkurinn vera til hægri.
„Danmörk fær nú nýja ríkisstjórn. Ríkisstjórn sem fæstir trúðu að yrði til fyrir kosningarnar. Ég hafði heldur ekki trú á því,“ sagði Jakob Ellemann-Jensen.
Endurkoma Lars Løkke í ríkisstjórn þykir athyglisverð en í kosningunum stýrði hann flokknum Moderaterne, klofningsframboði úr Venstre, og hafði áður tvívegis leitt hægri stjórnir sem forsætisráðherra.
„Að vera með í að skapa nýja stjórn fyrir Danmörku er þrátt fyrir allt frelsandi augnablik,“ sagði Lars Løkke Rasmussen.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: