Framkvæmdastjóri N4 á Akureyri segir þingmann Framsóknar hafa óskað sérstaklega eftir því að sjónvarpsstöðin bæði fjárlaganefnd um styrk. Þá sé stöðin sannarlega fjölmiðill, þrátt fyrir að meginþungi framleiðslunnar sé kostað efni. Nefndarmaður í fjárlaganefnd þvertekur fyrir að nefndin hafi misstigið sig í málinu.
Tekist var á um málið á Alþingi í dag – og ýmislegt fleira. Við verðum í beinni niðri á þingi og förum yfir helstu vendingar dagsins en þingmenn keppast nú við að afgreiða mál fyrir jólafrí.
Móðir þriggja ára stelpu sem fótbrotnaði í trampólíngarðinum Rush vill að foreldrar séu meðvitaðir um hætturnar sem fylgt geta trampólínhoppi. Dóttir vinkonu hennar fótbrotnaði vikuna áður. Við ræðum við móðurina og yfirlækni á bráðamóttöku um trampólínslys, sem geta haft alvarlegar afleiðingar.
Við förum einnig yfir merkilega stöðu á stjórnmálum í Danmörku og heimsækjum afkastamikinn Sörubakara í Hveragerði. Þetta og margt fleira í kvöldfréttum Stöðvar 2 á slaginu 18:30.