Þrír eru sagðir hafa látist og fimm særst þegar eldsneytistankbifreið sprakk í loft upp á herstöðinni hjá Ryazan. Þá eru tveir sagðir hafa særst á Engels-2 herstöðinni.
Báðar herstöðvar hýsa langdrægar Tu-95 sprengjuvélar, sem hafa meðal annars verið notaðar gegn Úkraínu. Þá segir Guardian að kjarnorkuvopn séu geymd á Engels-vellinum, sem skjóta má frá orrustuþotunum.
Orsakir sprenginganna eru óþekktar en Steven Rosenberg, ritstjóri hjá BBC í málefnum Rússlands, segir menn óneitanlega munu velta því fyrir sér hvort Úkraínumenn standi að baki atvikunum.
Rússneska fréttastofan Baza hefur greint frá því að loftárás hafi verið gerð á Engels-herstöðina og fréttastofan Astra segir tvær Tu-95 vélar hafa skemmst. Hvorug fréttastofa vitnar í heimildir.
Úkraínumenn eru ekki taldir eiga vopnakerfi sem gætu dregið svo langt inn í Rússland.
Þess má geta að í síðustu viku var greint frá því að gervihnattamyndir sýndu aukna umferð á Engels-vellinum. Der Spiegel birti myndirnar, sem virðast sýna um tuttugu orrustuþotur undirbúnar fyrir enn eina árásina á Úkraínu.
Dmitry Peskov, talsmaður stjórnvalda í Moskvu, segir Vladimir Pútín Rússlandsforseta hafa verið upplýstan um sprengingarnar. Peskov sagðist ekki hafa nánari upplýsingar um málið.
Sprengingarnar áttu sér stað í morgun en í kjölfarið hafa Rússar skotið fleiri en 100 stýriflaugum frá landi og sjó. Úkraínumenn voru hvattir til að leita skjóls í sprengjubirgjum.