Innlent

„Mesti léttir í lífinu að fá að fara í sam­fé­lags­þjónustu“

Auður Ösp Guðmundsdóttir skrifar
Allir viðmælendurnir voru sammála um að það væri mikill kostur að fá að afplána með samfélagsþjónustu í stað þess að fara í fangelsi.
Allir viðmælendurnir voru sammála um að það væri mikill kostur að fá að afplána með samfélagsþjónustu í stað þess að fara í fangelsi. Vísir/Vilhelm

„Þetta var mikil guðsgjöf, hannað fyrir mig. Mér finnst þetta æðislegt, dómar eru að hækka og fyrir menn sem eru að fá ítrekunarbrot er þetta betra. Menn eins og ég eiga að fá séns. Ef maður er ekki með nein ólokin mál og er í lagi,“ segir íslenskur karlmaður sem hlaut 24 mánaða óskilorðsbundna fangelsisrefsingu og bauðst að taka dóminn út í samfélagsþjónustu.

Þetta kemur fram í rannsóknarritgerð Brynju Rósar Bjarnadóttur í tengslum við lokaverkefni hennar til MA–gráðu í félagsfræði við Háskóla Íslands. Aðalmarkmið rannsóknarinnar var að kanna upplifun, reynslu og afstöðu þeirra sem afplána með samfélagsþjónustu og fá að taka út sína refsingu í vægara úrræði með tilliti til frelsisskerðingar.

Meðal annars kemur þar fram að samfélagsþjónusta er vissulega heppilegra úrræði en afplánun í fangelsi þar sem frelsisskerðing getur haft verulegar afleiðingar, til að mynda atvinnumissi og rof á félagslegum tengslum. Þrátt fyrir það reynist það einstaklingum áskorun að afplána samfélagsþjónustu þar sem erfitt getur reynst að samræma samfélagsþjónustuvinnuna með annarri vinnu og/eða námi og fjölskyldulífi. Þá getur það reynst erfitt fyrir dóm- og sektarþola að þurfa að bíða eftir svari hvort þeir hafa fengið samþykkta samfélagsþjónustu eða synjun.

Mikill kostur að fá að afplána með samfélagsþjónustu

Í tengslum við rannsóknina tók Brynja Rós viðtöl við sjö Íslendinga, sex karlmenn og eina konu sem eru nú þegar í samfélagsþjónustu eða hafa nýverið lokið henni. Tveir úr hópnum voru í samfélagsþjónustu bæði vegna óskilorðsbundinna fangelsisrefsinga og vararefsingar fésekta og fjórir voru einungis að afplána vegna óskilorðsbundinna fangelsisrefsinga. Þá var einn í samfélagsþjónustu vegna vararefsingu fésekta.

Allir viðmælendurnir voru sammála um að það væri mikill kostur að fá að afplána með samfélagsþjónustu og voru mjög ánægðir með vinnustaðina sem þeir voru að vinna á eða unnu á.  Þá voru þau sammála um að það var tekið hlýlega á móti þeim þegar þau mættu til vinnu. Á meðan þau afplánuðu í samfélagsþjónustu gátu þau verið virkir þjóðfélagsþegnar þar sem starfið sem felst í samfélagsþjónustu er unnið utan hefðbundins vinnutíma.

Flestir viðmælendurnir voru í góðri vinnu þegar þeir voru einnig að vinna í samfélagsþjónustu, þar af voru tveir að reka sitt eigið fyrirtæki og höfðu gert það í dágóðan tíma. Einn var í endurhæfingu og einn var öryrki. 

Fjórir þeirra upplifðu ekki að samfélagsþjónusta væri refsing en þremur þeirra fannst hún vera það. Einn úr hópnum orðaði það svo: „Já þetta er refsing, ég þarf að vakna á morgnana til að fara í þetta og ég er ekki að fara að vinna það sem ég er að skipuleggja fyrir sjálfan mig.“

Annar úr hópnum upplifði samfélagsþjónustu sem refsingu þar sem hann skammaðist sín fyrir að vera að sinna slíkri þjónustu. Honum leið ekki vel með það og varð vandræðalegur þegar vinir hans sáu hann í samfélagsþjónustu. „Það er pínu low að gera eitthvað af sér og vera svo í samfélagsþjónustu.“

Annar úr hópnum var ánægður að fá að taka dóminn sinn út í samfélagsþjónustu og sagði mikinn mun á samfélagsþjónustu og því að afplána í fangelsi. 

„Þetta eru bara tveir dagar í viku hjá mér en annars þyrfti ég að vera allan tímann innilokaður. Svo er maður læstur inn í klefa. Ég er rosalega þakklátur.“

Gott að vera í tengslum við fólk

Þeir sem eru með mörg járn í eldinum hafa þurft að púsla samfélagsþjónustunni saman við allt hitt. En svo eru aðrir sem eru ekki í vinnu og ekki miklum tengslum við fjölskyldu og vini og er þá gott að geta leitað til vinnustaðarins og fá félagsskap og starfsþjálfun. 

Einn úr viðmælendahópnum sagðist mæta tvisvar í viku í sína vinnu en vera annars meira og minna heima hjá sér. Hann sagðist vera ánægður að fá að mæta og hitta fólk og hefði verið að segja mætt aukalega til vinnu óumbeðinn.

„Eins og í fyrra þá tók ég aukavaktir og það var ekkert skrifað niður eða neitt. Af því að það vantaði um jólin. Alltaf þegar þau báðu mig um það. Það er ekkert sem við kemur þessu. Það var bara sjálfboðavinna.“

Fékk áfall

Viðmælendur rannsóknarinnar voru allir sammála um að þeir hefðu ekki þurft að bíða lengi eftir að þeir sóttu um samfélagsþjónustu hjá Fangelsismálastofnun og þar til þeir hófu störf.  Aftur á móti kvörtuðu þeir flestir yfir því að biðin hafi verið löng frá því að dómur féll og þar til þeir fengu bréfið frá Fangelsismálastofnun sem upplýsti hvenær þeir ættu að mæta til afplánunar. Oftar en ekki var staða þeirra orðin breytt til hins betra og var þetta óþægileg tilfinning. 

Í tilfelli eins úr hópnum var brotið orðið um 20 ára gamalt og dómurinn rúmlega það. Annar var í sambúð og nýbúin að eignast barn þegar hann byrjaði að afplána dóminn í samfélagsþjónustu.

„Lögreglan hafði samband við mig, ég var löngu boðaður í úttekt og var á leiðinni inn. Ég fékk áfall, ég var bara að fara inn. Svo hafði einhver í Afstöðu haft samband um að ég gæti sótt um samfélagsþjónustu. Ég sótti um leið og lögunum var breytt. Þetta var mesti léttir í lífinu að fá að fara í samfélagsþjónustu. Ég hef aldrei upplifað eins mikinn létti.“

Mun mannúðlegri lausn

Í ritgerð Brynju Rósar kemur fram að afplánun í fangelsi geti haft þau áhrif að dómþolinn verði stimplaður sem afbrotamaður af vinum, ættingjum og jafnvel samfélaginu. Samfélagsþjónustan gæti komið í veg fyrir stimplun þar sem einstaklingar geta sinnt þessari vinnu án þess að nokkur maður viti af því og getur þar af leiðandi komið í veg fyrir útskúfun og höfnun frá samfélaginu.

„Það sem stóð upp úr var hve mikill munur var á þeirri stimplun sem þeir hefðu sennilega upplifað ef þeir hefðu afplánað sína refsingu í fangelsi. Í samfélagsþjónustu voru þeir yfirleitt ekkert að fela það að þeir voru í henni og var þeirra nánustu alsælir að þeir væru að afplána með þessum hætti,“ segir Brynja Rós í samtali við Vísi.

Hún segir viðmælendur rannsóknarinnar hafa verið sammála um að þessi afplánunarleið væri mun mannúðlegri en afplánun í fangelsi.

„En þrátt fyrir það gat hún einnig verið tímafrek og væru þeir frekar til í að eyða þessum tíma í sinni eigin vinnu og/eða með sínum nánustu. En svo eru ekki allir með vinnu og er þetta kjörin leið til þess að fara í starfsendurhæfingu, læra að mæta á réttum tíma og svo framvegis.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×