Á vef Norðurlandaráðs kemur fram að Elleman hafi átt sæti á danska þinginu frá árinu 2007 og gegnt ýmsum ráðherraembættum í ríkisstjórn Danmerkur.
„Karen Ellemann er stjórnmálamaður með víðtæka þekkingu á sviðum sem vega þungt í norrænu framtíðarsýninni til ársins 2030. Hún hefur verið jafnréttisráðherra, umhverfisráðherra og félagsmála- og innanríkisráðherra. Auk þess hefur hún nokkrum sinnum verið sá ráðherra í Danmörku sem hefur farið með málefni norræns samstarfs,“ segir í tilkynningunni.
Fram kemur að Ellemann sé menntaður grunnskólakennari og hafi sinnt ýmsum stjórnunarstöðum í einkageiranum áður en hún hafi haslað sér völl á hinu pólitíska sviði árið 2005. „Hún hefur einnig verið í forystu fyrir Norræna félagið og sýnt mikinn áhuga á norrænu samstarfi. Karen Ellemann hefur heldur ekki hikað við að segja skoðun sína umbúðalaust þegar henni finnst að norrænu löndin geti unnið betur saman.“