Nökkvi Þeyr gekk til liðs við Beerschot frá KA í sumar en hann hafði átt frábært tímabil með KA-liðinu áður en hann hélt í víking og endaði sem markahæsti leikmaður Bestu deildarinnar þrátt fyrir að klára ekki mótið.
Fyrir leikinn gegn Kolbeini Þórðarsyni og félögum í Lommel í dag var Beerschot í sjötta sæti deildarinnar, tveimur stigum á undan Lommel.
Leikurinn fór fjörlega af stað og Beerschot komst yfir strax á fyrstu mínútu leiksins en Lommel jafnaði þremur mínútum síðar. Á 68.mínútu kom Thibaud Verlinden Beerschot síðan í 2-1 eftir sendingu frá Nökkva Þey og Nökkvi gulltryggði síðan sigur sinna manna með marki á 84.mínútu.
Þetta er annað mark Nökkva í deildinni en hann skoraði einnig í 4-0 sigri liðsins í bikarkeppninni í lok september. Kolbeinn Þórðarson byrjaði á bekknum hjá Lommel en kom inn sem varamaður á 74.mínútu leiksins í stöðunni 2-1.
Dagný Brynjarsdóttir var í byrjunarliði West Ham sem tapaði 5-4 fyrir Brighton í ensku úrvalsdeildinni. Dagný var tekin af velli á 83.mínútunni í stöðunni 5-2.